Innlent

Dróst 20 metra með vörubílnum

Sjö voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur strætisvagns og vörubifreiðar á gatnamótum Laugavegs, Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar á tíunda tímanum í gærmorgun. Strætisvagnabílstjórinn slasaðist alvarlega á fótum og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Þar gekkst hann undir aðgerð í gær og var í kjölfarið lagður inn á gjörgæslu. Hann kastaðist út úr strætisvagninum við áreksturinn og dróst um tuttugu metra eftir götunni með vörubifreiðinni. Fimm farþegar strætisvagnsins voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild en reyndust ekki alvarlega slasaðir. Eldri maður var þó lagður inn til eftirlits vegna höfuðáverka en hinir fengu að fara heim að lokinni skoðun. Ökumaður vörubifreiðarinnar var einnig fluttur með lögreglubíl á slysadeild. Hann var ómeiddur en mjög brugðið eftir áreksturinn ekki síst þar sem hann reyndist þekkja strætisvagnabílstjórann. Tildrög slyssins eru í rannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×