Innlent

Tildrög óljós

Strætisvagnstjóri liggur alvarlega slasaður á gjörgæsludeild eftir að strætisvagn og vörubíll skullu saman á gatnamótum Suðurlandsbrautar, Laugavegar og Kringlumýrarbrautar um klukkan níu í morgun. Strætisvagninn var á leið vestur Suðurlandsbraut og vörubíllinn norður Kringlumýrarbraut. Þeir skullu saman á gatnamótunum, strætisvagninn snerist níutíu gráður og kastaðist upp á hálfkláraða umferðareyju. Fimm farþegar voru í vagninum og voru þeir allir fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Einn var lagður inn til eftirlits næsta sólarhring en hinir fengu að fara heim að skoðun lokinni. Saga þurfti súlur í vagninum svo hægt væri að koma öllum út. Vagnstjórinn er hins vegar alvarlega slasaður á fótum. Strætisvagninn lenti á vörubílnum rétt aftan við stýrishúsið og kastaðist vagnstjórinn út úr vagninum við höggið. Hann var fluttur beint á sjúkrahús og fór þar í stóra aðgerð. Hann liggur nú á gjörgæsludeild og er líðan hans stöðug, að sögn vakthafandi læknis. Vörubílstjórinn slapp ómeiddur. Gatnamótunum var lokað í drjúga stund meðan hlúð var að slösuðum og lögregla rannsakaði slysstaðinn. Eins og sjá má eru bæði strætisvagninn og vörubíllinn mikið skemmdir. Lögregla hefur yfirheyrt vitni í dag og er enn að rannsaka tildrög slyssins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×