Erlent

Mengað eldsneyti líklega orsökin

Aðskotaefni í eldsneytistönkum er líklega orsök flugslyssins í Venesúela í fyrradag þegar MD-82-þota West Caribbean Airways fórst með 160 manns innanborðs. Björgunarsveitir héldu áfram í gær að leita að líkum og líkamshlutum þeirra sem fórust með flugvélinni, nærri borginni Machiques, skammt austur af kólumbísku landamærunum. Svo virðist sem vélin hafi skollið af fullu afli í jörðina með nefið á undan og því splundraðist flakið í smátt. Aðkoman var sögð hrikaleg, blóðugar líkamsleifar lágu eins og hráviði á stóru svæði. Svörtu kassarnir tveir fundust svo í gær en þeir eru taldir geta gefið mikilvægar vísbendingar um hvað fór úrskeiðis. Vitað er að bilun kom upp í báðum hreyflum vélarinnar nánast samtímis og því beinist grunur sérfræðinga helst að því að aðskotaefni í eldsneytistönkum hafi valdið slysinu. Flugmálayfirvöld í Panama, þaðan sem vélin lagði af stað, segja hins vegar að ekkert hafi fundist athugavert við eldsneytið á flugvellinum. Þó má vera að mengun hafi komið upp eftir að bensíni var dælt á tankana. Eins er hugsanlegt að fuglar hafi flogið inn í hreyflana og brotið skrúfublöð innan í þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×