Erlent

Á fimmta tug féll í árásum

43 Írakar biðu bana í þremur bílsprengjuárásum í Bagdad í gær og 89 slösuðust. Þetta eru mannskæðustu árásir sem gerðar hafa verið í höfuðborginni í margar vikur. Allar árásirnar voru gerðar á fjölförnum stöðum á háannatíma. Fyrsta sprengjunni var beint að lögreglumönnum fyrir framan Nahda-rútustöðina í miðborginni en sú næsta sprakk örskömmu síðar í bílageymslu stöðvarinnar en þaðan leggja rútur af stað til Basra og Amarah, tveggja fjölmennra sjíaborga. Mikil skelfing greip um sig á stöðinni og mátti sjá limlest lík og stórslasað fólk hvarvetna. Sú þriðja sprakk svo nærri Kindi-sjúkrahúsinu þegar rúmur hálftími var liðinn frá tilræðunum en þangað var verið að flytja marga hinna slösuðu. Enginn hefur lýst ábyrgð á hendur sér en lögregla handtók fjóra menn í tengslum við árásirnar í gær. Þá dóu þrír í sprengjuárás í borginni Fallujah síðdegis í gær. Tveir hinna látnu voru börn. Íraskir stjórnmálaleiðtogar hófu að funda á ný um stjórnarskrá landsins eftir að viðræðurnar fóru út um þúfur á mánudagskvöldið. Nái þeir ekki samkomulagi um inntak hennar fyrir næsta mánudag verður þingið leyst upp og boðað til nýrra kosninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×