Innlent

Vargdýr ógna lífríki Mývatns

"Við höfum skorið niður fjármagn til málaflokksins úr 4,5 milljónum í 2,5," segir Sigbjörn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps um minka- og tófuveiðar. Það sem af er þessu ári hafa veiðar haldið áfram með hefðbundnum hætti en fjárveiting ársins er að verða uppurin um þessar mundir og svo kann að fara að ekkert verði veitt það sem eftir er af árinu. Sveitarstjórnin ræðir málið síðar í dag, en óvíst er hver lendingin verður. "Við erum ekkert sérstaklega sáttir með að þurfa að hætta." Sigbjörn hefur áhyggjur af lífríkinu við vatnið en það hefur verið tiltölulega minkafrítt. "Hvergi í heiminum verpa jafnmargar andartegundir." Sigbjörn telur að veiðarnar ættu að vera á hendi ríkisins en ekki sveitarfélaganna. Skútustaðahreppur þekur sex prósent af flatarmáli landsins en íbúarnir eru 450, eða 0,15 prósent landsmanna. "Það er rétt að Mývatn hefur lengi verið nokkuð minkafrítt," segir Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. Hann segir minka aðeins hafa veiðst á jaðri svæðisins. "Það heyrir til undantekninga ef greni finnst nærri vatninu." Hann telur forgangsmál að minkurinn nái ekki fótfestu á ný en í kringum 1980 fóru veiðar að skila árangri. "Þegar hann kom fyrst breyttist varpið mikið. Frægt andavarp í Slútnesi hvarf til að mynda alveg." Að sögn Árna er flöskuhálsinn í afkomu minksins um háveturinn. "Það væri mjög slæmt ef minkur yrði ekki veiddur í nóvember og desember." Árni tekur undir að Mývetningar eigi ekki að bera kostnaðinn af veiðunum. "Mývatn er náttúruverndarsvæði með sérstökum lögum og einstakt í heiminum." "Ef ég fæ ekki að veiða hér í vetur verða minkagreni um allt svæðið strax næsta vor," segir Ingi Þór Yngvason, sem hefur sleitulaust í þrjá áratugi séð um veiðarnar með góðum árangri. Hann hefur þó meiri áhyggjur af fjölgun tófunnar. "Ég hef minni áhyggjur af minknum þar sem ég treysti mér til þess að vinna það allt til baka. Það er auðvelt að veiða hann í gildrur allan ársins hring. "Ég er ekki jafn viss með refinn, við höfum ekki sama tak á honum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×