Erlent

Órói á Gaza-ströndinni

Ísraelskar hersveitir þvinga nú landnema á Gaza-ströndinni til að yfirgefa heimili sín þar en frestur til að fara friðsamlega rann út á miðnætti. Reiði og angist hrjá landnemana sem hafa sumir hverjir búið á svæðinu í nærri fjóra áratugi, en Palestínumenn gleðjast yfir því að fá hernumið land til baka. Skömmu eftir miðnætti í nótt létu óvopnaðir hermenn til skarar skríða gegn landnemum og nokkur þúsund stuðningsmönnum sem komið höfðu sér fyrir í landnemabyggðunum og vildu ekki fara. Fimm landnemabyggðir voru teknar fyrir; lögreglumenn tóku landnemana og þvinguðu inn í rútur sem óku þeim beint til Ísraels. Spennan var einna mest í Neve Demalim, byggð þar sem þúsundir ungra harðlínuþjóðernissinna komu sér fyrir í bænahúsi og neituðu að fara. Margir þeirra eru þeirrar trúar að guð hafi gefið gyðingum landið og því sé brotið gróflega á þeim. Hermenn hörfuðu undan ofsafullum landnemum sem orguðu og grýttu glervarningi í hermennina. Kona var handtekin fyrir að leggja til hermanns þar með hnífi. Reykur úr brennandi dekkjum og rusli lá yfir byggðinni. Kona á sjötugsaldri kveikti í sjálfri sér utan við lögregluvarðstöð í mótmælaskyni við brottflutninginn. Hún hlaut alvarleg brunasár á sextíu prósentum líkamans. Margir landnemanna fóru hins vegar friðsamlega og tveir þriðju þeirra hafa þegar tekið tilboði stjórnvalda um greiðslur og bætur. Þeir landnemar sem ekki voru með læti voru engu að síður sorgmæddir og tárfelldu margir þegar þeir yfirgáfu heimili sín í síðasta sinn. Í sumum byggðunum voru jarðýtur teknar við að rífa húsin sem þar voru. Þrjátíu og átta ár eru liðin frá því að Ísraelsmenn hernámu Gaza-ströndina en aðgerðirnar nú miða að því að skila landinu innan nokkurra daga. Palestínumenn gleðjast en óttast jafnframt að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, ætli fyrir vikið að herða tökin á Vesturbakkanum, en nærri tíu prósent íbúa hans eru landnemar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×