Erlent

Olíuverð fer hækkandi

Olíuverð stefnir hratt í hæstu hæðir. Það fór yfir sextíu og fjóra dollara í Asíu í morgun en á Evrópumarkaði hefur það lækkað lítillega frá hámarki morgunsins, sem var rúmlega sextíu og þrír dollarar. Olíufélagið og Skeljungur tilkynntu í dag um hækkun á eldsneyti og segir að síðustu viku hafi heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu haldið áfram að hækka og óljóst sé hver áframhaldandi þróun verður. Olís og Atlantsolía hafa ekki tilkynnt um hækkun. Verð á bensínlítra hjá Olíufélaginu hækkar um eina krónu og fimmtíu aura og verð á dísilolíu- og gasolíulítra hækkaði um eina krónu. Skeljungur hækkar bensínlítrann um eina krónu og 40 aura og díselolíuna um krónu. Eftir þessa breytingu er algengt verð á höfuðborgarsvæðinu á 95 oktana bensíni hjá Olíufélaginu í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð 113,10 krónur og dísilolíu kr. 111,60 krónur. Verð með fullri þjónustu er 118,10 krónur bensínlítrinn og 116.6 krónur dísilolíulítri með olíugjaldi. Sérfræðingur hjá Barclays Capital segir ekki spurningu um að verðið fari yfir sextíu og fimm dollara innan skamms. Fregnir af hryðjuverkaógn í Sádi-Arabíu og spenna undanfarinna vikna er meginástæða þess að verðið þokast nú upp á við, auk viðvarandi þrýstings vegna mikillar eftirspurnar og vandræða hjá olíuhreinsunarstöðvum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×