Erlent

Netanyahu segir af sér

Benjamin Netanyahu, fjármálaráðherra Ísraels og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sagt af sér sem ráðherra í ríkisstjórn Ariels Sharon. Hann segir ástæðuna vera að hann geti ekki samvisku sinnar vegna verið hluti af ríkisstjórn sem standi fyrir brottflutningi gyðinga af Gaza-svæðinu. Hann lagði inn afsögn sína á vikulegum ríkisstjórnarfundi í gær og fór í kjölfarið rakleitt á fund blaðamanna þar sem hann útlistaði ástæðurnar. Hann segir ólíklegt að afsögn sín komi til með að breyta áformum um brottflutninginn sem hann segir vera slæm. Hann vill meina að þegar gyðingar eru farnir frá Gaza þá verði svæðið gróðrarstía fyrir hryðjuverkamenn og íslamska öfgamenn. Hann segir það heimsku að virða að vettugi ábendingar leyniþjónustunnar þar um. Netanyahu sagðist harma að honum gæfist ekki tækifæri til að ljúka við efnahagsumbætur þær sem hann hefði staðið fyrir undanfarin ár en hann gegndi embætti fjármálaráðherra í hálft þriðja ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×