Erlent

Vakin af birni í útilegu

Hópur fólks í útilegu í Bandaríkjunum vaknaði upp við vondan draum þegar bjarndýr tók að klóra hann. Fólkið var fljótt að koma sér fram úr. Það var í Sussex-sýslu í New Jersey sem fólkið lagðist til svefns í þjóðgarðinum. Það var svo heitt að það lagði ekki á sig að tjalda heldur lagðist til svefns undir berum himni. Fólk í öðrum búðum skammt frá var vaknað um morguninn þegar bjardýr ráfaði inn á svæðið. Það fólk þorði hvorki að æmta né skræmta og vonaði bara að bjardýrið færi aftur til skógar. Það hafði þó rænu á að taka atburðinn upp á myndband. Bjarndýrið hnusaði af sofandi fólkinu og þegar það hreyfði sig ekki slæmdi það hramminum í einn mannanna. Það er líklega óhætt að segja að hugtakið að vakna upp við vondan draum hafi öðlast nýjar víddir þegar fólkið hrökk upp og horfðist í augu við bjarndýrið. Sem betur fer hafði það allt á sér háværar flautur og blés í þær, líklega fastar en það hefur nokkru sinni blásið í flautur áður. Bangsi hikaði nokkra stund en hypjaði sig svo aftur inn í skóginn til þess að losna frá þessum hávaðaseggjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×