Erlent

Furða sig á ákvörðun KEA

Femínistafélag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið furðar sig á ákvörðun KEA að neita að samþykkja lögbundið fæðingarorlof Andra Teitssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra KEA. Þá furðar Femínistafélagið sig á ummælum Benedikts Sigurðarsonar, stjórnarformanns KEA, sem sagði stjórn fyrirtækisins þeirrar skoðunar að lög um fæðingarorlof ættu ekki að gilda um stjórnendur á háum launum sem gegndu lykilstöðum í sínu fyrirtæki. Af þeim megi dæma að stjórn KEA sé þeirrar skoðunar að fólk á barneignaaldri eigi ekki að taka að sér lykilstöður nema ljóst sé að makinn taki allt barnauppeldi að sér. Femínistafélagið segir þetta viðhorf er þvert á allar jafnréttishugsjónir, sérstaklega í ljósi þess hversu fáar konur gegni lykilhlutverkum innan íslenskra fyrirtækja. Því séu ummæli Benedikts ekki til fyrirmyndar og ekki í samræmi við samþykktir KEA en þar segi m.a. að tilgangur fyrirtækisins sé „að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu á félagssvæði sínu“. Barneignir teljist vel til þess fallnar að efla búsetu en kannski líti KEA-menn svo á að það eigi að vera einkamál kvenna að sjá um börnin og feðurnir - allra síst þeir sem eru í stöðu framkvæmdastjóra - eigi ekki að vera að láta barnalán sitt hafa áhrif á starfsframann.  „Femínistafélag Íslands vonar að önnur fyrirtæki hér á landi reki virka fjölskyldu- og jafnréttis stefnu og að þau átti sig á mikilvægi þess að þeir starfsmenn sem hafa tækifæri til að sameina starf og fjölskyldulíf eru þegar á reynir, verðmætustu starfsmennirnir. Það að eiga barn er gleðilegur atburður. Fjarveru vegna barnsfæðingar er hægt að undirbúa með góðum fyrirvara og er slíkt til marks um góða stjórnun,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Þá minnir Femínistafélag Íslands á að allir séu jafnir fyrir lögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×