Erlent

Báðir hreyflar vélar stöðvuðust

Flugslysið undan ströndum Sikileyjar í gær varð vegna þess að báðir hreyflar vélarinnar stöðvuðust, skyndilega. 39 manns voru um borð í vélinni sem var skrúfuþota af gerðinni ATR 72. Hún var á leið frá borginni Bari á Suðaustur-Ítalíu til ferðamannaeyjarinnar Djerba sem er undan ströndum Túnis. Flugstjóri vélarinnar segir að eftir að vélin verið á flugi í eina klukkustund hafi annar mótor hennar skyndilega stöðvast. Hann sendi þá út neyðarkall og bað um leyfi til þess að nauðlenda í Palermo á Sikiley. En áður en vélin náði þangað stöðvaðist hinn mótorinn og þá var ekki um annað að ræða en að nauðlenda á sjónum. Vélin brotnaði í lendingunni og einn farþeganna lýsti því þannig að hún hefði opnast eins og mjólkurferna. Farþegarnir svömluðu út úr vélinni og héldu sér á floti á braki úr henni. Fljótlega dreif að björgunarbáta og þyrlur. Þrettán manns fundust látnir, 24 var bjargað og tveggja er enn saknað. Margir þeirra sem bjargað var eru slasaðir eftir nauðlendinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×