Erlent

Sjóliðum bjargað úr kafbáti

Sjö rússneskum sjóliðum var í morgun bjargað úr dvergkafbáti sem sökk síðastliðinn fimmtudag á 190 metra dýpi. Mikil fagnaðarlæti urðu um borð í rússnesku björgunarskipunum, sem hafa verið yfir slysstaðnum síðan á fimmtudag, þegar kafbáturinn AS-28 kom upp á yfirborðið. Sjóliðarnir um borð opnuðu sjálfir lúgu kafbátsins og veifuðu til vina sinna, sýnilega fegnir að vera lausir úr prísund sinni á hafsbotni. Breskir og bandarískir kafarar tóku þátt í björguninni og það var fjarstýrður breskur kafbátur sem skar í sundur netaflækju sem hafði flækst í skrúfu kafbátsins AS-28. Talsmaður rússneska flotans sagði að áhöfnin hefði staðið sig hetjulega meðan á þessu stóð og að aldrei hefði heyrst í þeim kvörtun eða uppgjafartónn. Hann þakkaði breskum og bandarískum sjóliðum fyrir ómetanlega aðstoð við björgunina. Upphaflega voru rússneskir flotaforingjar mátulega hrifnir af því að leyfa Bretum og Bandaríkjamönnum að kafa á þessum slóðum þar sem Rússar geyma mörg hernaðarleyndarmál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×