Erlent

Bretar og Bandaríkjamenn hjálpa

Breskir og bandarískir sjóliðar komu til Kamtjaska-skaga í gærmorgun með ýmsan búnað til að aðstoða við björgun rússnesks kafbáts sem strandaði á 190 metra dýpi út af skaganum á fimmtudaginn. Strandið bar til þegar netadræsa festist í skrúfu bátsins. Sjö menn eru um borð í kafbátnum og áttu loftbirgðir þeirra að duga þar til nú í nótt. Ekki hafði tekist að bjarga þeim þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld. Í gærmorgun náðist talstöðvarsamband við áhöfnina og Vyatsjeslav Milasjevskí, 25 ára gamall skipstjóri kafbátsins, sagði ástand sinna manna viðunandi þrátt fyrir að hitinn í bátnum væri einungis rétt um fimm gráður. Athygli vekur að Rússar báðu þegar um aðstoð erlendis frá þegar fréttist af strandinu, öfugt við það sem þeir gerðu þegar kafbáturinn Kúrsk fórst fyrir fimm árum með yfir hundrað sjóliða innanborðs. Í fyrrakvöld tókst að festa taug í kafbátinn en hún slitnaði þegar reynt var að draga hann upp á grunnsævi. Í gær átti svo að kanna aðstæður á strandstað með fjarstýrðum bandarískum kafbátum og jafnvel reyna að nýta þá til að klippa á netadræsurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×