Erlent

Sjóræningjar yfirgefa matvælaskip

Sómalskir sjóræningjar, sem rændu skipi á vegum Sameinuðu þjóðanna úti fyrir Sómalíu fyrir rúmum mánuði, hafa fallist á að yfirgefa skipið og sleppa áhöfninni eftir að hafa komist að samkomulagi við Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Skipið var á leið til hafnarinnar í Bossao í Sómalíu með 850 tonn af hrísgrjónum fyrir þá sem eiga um sárt að binda í landinu eftir flóðbylgjuna annan dag jóla í fyrra þegar sjóræningjarnir réðust um borð. Þeir kröfðust í upphafi ríflega 30 milljóna króna í lausnargjald fyrir skipið og 10 manna áhöfn þess en fóru að lokum fram á að fá að ráðstafa hrísgrjónunum. Skipinu verður nú siglt til hafnarinnar El Maan og verður hrísgrjónunum dreift í miðhéruðum Sómalíu. Hins vegar er þess ekki getið hvað verður um sjóræningjana, en þess má geta að sjórán eru nokkuð tíð undan ströndum Sómalíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×