Erlent

Refsiaðgerðir vofa yfir Íran

MYND/AP
Refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna vofa nú yfir Íran eftir að stjórnvöld þar höfnuðu boði Evrópusambandsins um bætur fyrir að hætta að auðga úran sem hægt er að nota í kjarnorkusprengjur. Evrópusambandið bauð Írönum meðal annars aðstoð við að koma sér upp kjarnorkuverum til orkuframleiðslu en það yrði undir eftirliti Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem myndi sjá til þess að ekki yrði farið út í þróun á úrani sem hægt er að nota í kjarnorkusprengjur. Sambandið bauð Írönum einnig að hraða undirritun viðskipta- og samvinnusáttmála milli Írans og Evrópusambandsins, styðja aðild Írans að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, vinna með landinu að orkumálum og að öryggismálum í Miðausturlöndum. Einn af erindrekum Evrópusambandsins sagði að ef Íranar höfnuðu þessu boði gæti það aðeins þýtt eitt, Íranar ætluðu að smíða kjarnorkusprengjur. Samninganefnd Evrópusambandsins sagði einnig við Írana að ef þeir þráuðust enn við yrði málinu vísað til Sameinuðu þjóðanna sem myndu þá ákveða refsiaðgerðir gegn landinu. Þrátt fyrir þetta sögðu Íranar í dag að tilboð Evrópusambandsins væri óaðgengilegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×