Erlent

Minnast fórnarlamba í Hiroshima

Tugþúsundir manna víðs vegar að úr heiminum eru komnir til Hiroshima í Japan, til þess að minnast þess að í dag eru 60 ár síðan kjarnorkusprengju var varpað á borgina. Klukkan kortér yfir átta að morgni 6. ágúst árið 1945 sleppti bandaríska sprengjuflugvélin Enola Gay kjarnorkusprengju sem hafði fengið gælunafnið Feiti strákurinn yfir Hiroshima. Andartaki síðar hafði borgin verið jöfnuð við jörðu. Af 350 þúsund íbúum létu 140 þúsund lífið og þúsundir til viðbótar dóu síðar vegna meiðsla og geislunar. Þrem dögum síðar, hinn 9. ágúst, var annarri kjarnorkusprengju varpað á borgina Nagasaki. 15. ágúst gáfust Japanar svo upp og heimsstyrjöldinni síðari var lokið á Kyrrahafsvígvellinum. Klukkan kortér yfir átta í morgun var kirkjuklukkum hringt um alla Hiroshima til þess að minnast þeirra sem létu lífið. Það er kaldhæðnislegt að þessi minningarathöfn er haldin í skugga annarrar kjarnorkuógnar. Nú er stödd samninganefnd í Japan sem reynir að fá Norður-Kóreu ofan af því að smíða kjarnorkuvopn. Þessi ógn hefur valdið því að komið hafa fram kröfur í Japan um að styrkja varnir landsins og treysta enn hernaðarlega samvinnu við Bandaríkin sem vörpuðu á Japan fyrstu kjarnorkusprengju sögunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×