Erlent

Björgunaraðgerðum haldið áfram

Rússneska flotanum mistókst í nótt að draga dvergkafbátinn sem sökk á Kyrrahafi á grynnri sjó. Kafbáturinn er á 190 metra dýpi og það er of djúpt til þess að sjö manna áhöfnin geti yfirgefið hann og synt upp á yfirborðið. Rússar segja að þeir haldi björgunarstarfi áfram af fullum krafti en svo virðist sem þeir bindi vonir sínar við aðstoð frá Bandaríkjamönnum og Bretum. Bæði þessi lönd hafa sent ómannaða, fjarstýrða björgunarkafbáta flugleiðis til Kamsjatka-skagans, en það er undan ströndum hans sem dvergkafbáturinn AS-28 liggur. Breski kafbáturinn er þegar kominn til Kamsjatka en það mun taka hann sex klukkustundir að komast á slysstaðinn. Um borð í A-28 eru sérstök öndunartæki sem áhöfnin getur notað til þess að yfirgefa kafbátinn og synda upp á yfirborðið. Dýpið er hins vegar of mikið til þess að það sé hægt. Rússneski flotinn reyndi í nótt að draga kafbátinn á grynnri sjó en það mistókst. Rússar segja að þeir séu í stöðugu sambandi við áhöfnina og að allt sé í lagi með hana enn þá. Nokkuð misvísandi upplýsingar hafa borist um loftbirgðirnar í A-28, en talið er að þær endist í sólarhring til viðbótar. Kafbáturinn sökk þegar netadræsa flæktist í skrúfu hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×