Erlent

Íranar muni ekki gefa eftir

MYND/AP
Íranar munu ekki láta undan þrýstingi Vesturlanda og þeir verða ekki kúgaðir til neinna aðgerða. Þetta sagði Mahmoud Ahmadinejad, nýkjörinn forseti Írans, í ávarpi í kjölfar þess að hann sór embættiseið á íranska þinginu í dag. Íranar deila sem kunnugt er við Evrópusambandið og Bandaríkin um kjarnorkuáætlun sína, en Bandaríkjamenn saka Írana um að nota hana sem yfirvarp fyrir kjarnorkuvopnaframleiðslu. Íranar hafa að undanförnu átt í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem hefur boðið þeim ýmiss konar aðstoð og samstarf gegn því að þeir leggi kjarnorkuáætlanir sínar á hilluna en ekkert hefur þokast í samkomulagsátt. Harðlínumaðurinn Ahmadinejad vann nokkuð óvæntan sigur í forsetakosningum í júní síðastliðnum en erindrekar telja að með hann í embætti forseta verði enn erfiðara að semja við Írana um kjarnorkumál. Ahmadinejad bíða þó ekki aðeins erfið verkefni í utanríkismálum því atvinnuleysi og velferðarmál innanlands verða einnig ofarlega á stefnuskrá hans ef marka má ávarp hans í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×