Erlent

Fólin eykur fæðingarþyngd

Inntaka fólínsýru á meðgöngu dregur úr hættunni á of lágri fæðingarþyngd, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt er í breska næringarfræðiblaðinu. Rannsóknin náði til eitt þúsund kvenna og leiddi í ljós að verðandi mæður sem mældust með lágt hlutfall fólínsýru við upphaf meðgöngu voru líklegri til að eignast börn með of lága fæðingarþyngd. Of lág fæðingarþyngd er skilgreind undir 2,4 kílóum, sem samsvara um níu merkum, og getur hún orsakað ýmis heilsufarsleg vandamál hjá hvítvoðungunum, svo sem öndunarerfiðleika og sykursýki, að því er fréttavefur BBC skýrir frá. Rannsóknin sýnir fram á að verðandi mæður sem reykja búa yfir minni forða af fólínsýru en þær sem reykja ekki og það gæti ef til vill skýrt hvers vegna reykingakonur eignast að meðaltali léttari börn en þær sem reykja ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×