Erlent

Sjö kafbátasjómenn í lífshættu

Sjö rússneskir kafbátasjómenn voru í lífshættu í gærkvöldi eftir að kafbáturinn þeirra festi skrúfuna í netadræsu og sökk til botns á um 190 metra dýpi út af Kamtjaska-skaga í gær. Rússnesku björgunarskipi hafði tekist að festa togvír við kafbátinn og var, þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld, að reyna að toga hann á nægilega mikið grunnsævi til að kafarar gætu komið sjö skipverjum til bjargar. Óttast er að súrefnisbirgðir kafbátsins dugi ekki nema rétt fram yfir hádegi í dag. Bresk og bandarísk skip voru í gærkvöldi send á vettvang til að hjálpa til við björgunaraðgerðir og búist var við því að þau kæmu á staðin snemma í morgun. Rússum er enn í fersku minni hörmulegt slys þegar allir 118 áhafnarmeðlimir kafbátsins Kursk drukknuðu. Kafbátafloti Rússa er að mörgu leyti úr sér genginn enda fór uppbygging flotans að mestu leyti fram á árum kalda stríðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×