Erlent

Í tímaþröng með kafbát

Unnið er í kapp við tímann við að koma björgunarbúnaði að rússneska kafbátnum, sem situr fastur á hafsbotni, um 75 kílómetra úti fyrir Kyrrahafsströnd Rússlands. Áhöfnin hefur einungis súrefni sem endist þeim í sólarhring. Sjö menn eru um borð í bátnum sem setið hefur fastur á um 200 metra dýpi frá því í gær. Níu rússnesk skip eru á slysstað, von er á bandarískum og breskum björgunarkafbátum og -búnaði með flugi og þrjú skip eru lögð af stað frá Japan. Einungis er hægt að vona að mennirnir verði á lífi þegar sú hjálp berst. Tíminn er á þrotum því áhöfnin hefur aðeins súrefni sem endist í sólarhring. Í fyrstu var talið að mennirnir hefðu súrefni til fimm daga en svo virðist sem útreikningar hafi misfarist þar eð mennirnir eru sjö en slíkir kafbátar taka yfirleitt aðeins þrjá menn. Talið er að skrúfa bátsins, sem er um 13 metra langur, sé föst í neti og vírum sem hafi dregið bátinn til botns. Báturinn var við heræfingu þegar slysið varð og mennirnir í þjálfun. Reynt verður að ná bátnum upp á yfirborðið en hann liggur á það miklu dýpi að mennirnir geta ekki yfirgefið hann og kafarar ná ekki til þeirra. Samband hefur náðst við kafbátinn og fengust þær upplýsingar að mennirnir væru enn allir heilir á húfi. Kafbátar af þeirri gerð sem um ræðir eru notaðir við björgunaraðgerðir, meðal annars þegar rússneski kafbáturinn Kursk fórst á Barentshafi fyrir fimm árum. Öll áhöfn Kursk fórst, 118 menn. Rússnesk stjórnvöld voru þá harðlega gagnrýnd fyrir að afþakka þau björgunarskip sem aðrar þjóðir buðust til að senda til hjálpar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×