Erlent

Fuglaflensu vart víðar í Rússlandi

Fuglaflensa virðist nú breiðast um héruð Rússlands, en í dag tilkynntu yfirvöld að hún hefði greinst í tveimur héruðum til viðbótar við þau þrjú þar sem vitað var af veikinni. Þó hefur afbrigði veikinnar, sem borist getur í menn og hefur dregið 50 manns í Asíu til dauða á síðustu tveimur árum, aðeins fundist í einu héraði en í hinum fjórum héruðunum er um önnur afbrigði að ræða. Þá berast fregnir af því að fuglaflensa hafi einnig stungið sér niður í nágrannaríkinu Kasakstan. Yfirvöld í Rússlandi og Kasakstan reyna nú að hefta útbreiðslu veikinnar og hefur 10 þúsund alifuglum verið slátrað í Rússlandi síðustu daga vegna þessa en veikin hefur einnig greinst í villtum fuglum. Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld óttast að fuglaflensuveiran geti stökkbreyst og í kjölfarið borist á milli manna og valdið alheimsfaraldri líkt og spánska veikin, en engin bóluefni eru til við fuglaflensu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×