Erlent

Bílsprengja banar tugum í Bagdad

Sjálfsmorðssprengjumaður ók vörubíl hlöðnum sprengiefni á lögreglustöð í Bagdad í gær, með þeim afleiðingum að 22 menn að minnsta kosti létu lífið og þrír tugir til viðbótar særðust, að því er írösk lögregluyfirvöld greindu frá. Talsmenn Bandaríkjahers sögðu að minnsta kosti 40 hafa farist. Árásin var gerð á Rashad-lögreglustöðina í Masthal-hverfi í austanverðri Bagdad klukkan 14.50 að staðartíma. Að sögn Mahir Abdul Sahar, talsmanns írösku lögreglunnar, voru flestir hinna látnu óbreyttir borgarar. Þetta var mannskæðasta árásin í Írak frá því 16. júlí, er sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi bílsprengju nærri sjíamosku í Musayyib, en við sprenginguna kviknaði einnig í olíuflutningabíl og nærri 100 manns fórust. Meðlimir í stjórnmálabandalaginu að baki Ayad Allawi forsætisráðherra hótuðu í gær að ganga úr því í stuðningsskyni við hreyfingu súnnía sem hafa neitað að taka þátt í undirbúningi nýrrar stjórnarskrár. Telja þeir Allawi ekki hafa gert nóg til að fá súnnía til liðs við að byggja upp hið nýja Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×