Innlent

Kertaljós tendruð á Lækjartorgi

Kertaljós voru tendruð á mótmælafundi Amnesty International við Lækjartorg klukkan fimm. Opinberar stofnanir flögguðu í hálfa stöng og íslenskir þjóðarleiðtogar sendu Bretum samúðarkveðjur í kjölfar atburðanna í dag. Fyrirbænastund verður í Dómkirkjunni í Reykjavík klukkan átta í kvöld. Íslandsdeild Amnesty International boðaði til mótmælafundar á Lækjartorgi í dag til að sýna samstöðu með fórnarlömbum árásanna í Lundúnum og standa vörð um mannréttindi. Samtökin fordæma sprengjuárásirnar, segja árásir á almenna borgara aldrei réttlætanlegar og að þeir sem beri ábyrgð á árásunum verði að svara til saka í réttarhöldum. Flaggað var í hálfa stöng við opinberar stofnanir, þar á meðal við utanríkisráðuneytið, Stjórnarráðið og Seðlabankann. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sendi Elísabetu Bretadrottningu og Tony Blair samúðarkveðjur í dag eins og fjöldi annarra þjóðarleiðtoga víða um heim. Þá sendi Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Blair samúðarskeyti vegna hryðjuverkanna. Forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sendi að auki samúðarkveðjur fyrir hönd Alþingis til Michaels Martins, forseta neðri deildar breska þingsins, og sagði hann Íslendinga hugsa hlýtt til bresku þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum. Íslenska þjóðkirkjan hefur vottað sendiráði Bretlands á Íslandi samúð sína og var þeim tilmælum beint til presta að þeir myndu opna kirkjur sínar klukkan sex í kvöld til að taka á móti fólki og leiða það í fyrirbæn fyrir fórnarlömbum árásanna. Fyrirbænastund vegna atburðanna verður í Dómkirkjunni í Reykjavík klukkan átta í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×