Erlent

Lundúnir hrepptu hnossið

Fundar Alþjóðaólympíunefndarinnar í Singapúr í gær hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda var keppnin um hvaða borg héldi Ólympíuleikana 2012 óvenju hörð. Ásamt París og Lundúnum bitust einnig New York, Moskva og Madríd um leikana. Atkvæðagreiðslan í morgun var í fjórum umferðum en að lokum stóðu Lundúnir uppi sem sigurvegari. Mjótt var þó á munum, París fékk 50 atkvæði en Lundúnir 54. Flestir eru sammála að frammistaða Sebastian Coe, Ólympíumeistara og forsvarsmanns framboðsins, hafi ráðið úrslitum um að borgin bar sigur úr býtum. Elísabet Bretadrottning sendi honum kveðjur sínar, svo og Tony Blair forsætisráðherra. "Þetta er stórkostlegur dagur fyrir Breta," sagði hann. Strax og úrslitin urðu ljós þustu Lundúnabúar út á göturnar, veifuðu fánum og þeyttu bílflautur. Þúsundir söfnuðust saman á Trafalgar-torgi en jafnframt lögðu margir leið sína á staðinn sem hinn nýi Ólympíuleikvangur verður reistur. Gengi bréfa í breskum verktakafyrirtækjum tók stökk á hlutabréfamörkuðum í gær og fasteignasalar spá enn frekari hækkun húsnæðisverðs í borginni vegna ákvörðunarinnar. Rigningin í París í gær var táknræn fyrir stemninguna þar en Frakkar voru fyrirfram afar bjartsýnir á að fá að halda leikana. Ólympíuleikarnir voru síðast haldnir í Frakklandi 1924 og þeim hafði verið synjað um að halda þá 1992 og 2008. Þeir fjölmörgu sem komu saman fyrir framan ráðhús Parísarborgar í gær urðu fyrir sárum vonbrigðum þegar Alþjóðaólympíunefndin greindi frá ákvörðun sinni. Jacques Chirac færði Bretum þó sínar hamingju- og velfarnaðaróskir. Mikið er í húfi fyrir þá borg sem hreppir þetta eftirsótta hnoss. Kastljós heimsbyggðarinnar beinist að staðnum í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stendur og í mörg ár á eftir liggur straumur ferðamanna þangað. Framkvæmdirnar sem leikunum fylgja þýða jafnframt að mörg störf skapast.Umstangið í kringum leikana er hins vegar afar kostnaðarsamt, en Lundúnablaðið Times gerir ráð fyrir að þeir kosti 1.400 milljarða íslenskra króna. Þær áætlanir gætu hæglega farið úr böndunum, Grikkir eru enn að súpa seyðið af kostnaðinum við sína leika sem voru tvöfalt dýrari en í upphafi var búist við. Ellert B. Schram, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, líst vel á að leikarnir verði haldnir í Lundúnum. "Þetta er á sama menningarsvæði og Ísland og nálægt okkur og gerir allan undirbúning þægilegri og kostnað lægri." Ellert er staddur á Ólympíuhátíð æskunnar í Lignano með íslenskum ungmennum sem á vissan hátt má líta á sem undirbúning fyrir Ólympíuleikana 2012. "Jú, kannski að við séum að stíga fyrstu skrefin núna til að undirbúa þá. Krakkarnir verða í það minnsta á besta aldri þegar þar að kemur." "Ég stend á Trafalgar-torgi og Nelson virðist horfa mjög stoltur ofan af súlunni sinni," sagði Alp Mehmet, sendiherra Bretlands á Íslandi, þegar haft var við hann samband í gær. "Þetta er mikill gleðidagur fyrir alla Lundúnabúa. Þeir óska hverjir öðrum til hamingu og tala um hversu stórkostlegur dagur þetta sé. Ég var í utanríkisráðuneytinu þegar fregnin spurðist út og allt í einu nötraði byggingin vegna fagnaðarláta. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hversu frá sér numið af fögnuði fullorðið fólk gæti orðið. Þetta er sigur fyrir alla Breta, ekki bara Lundúnabúa."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×