Erlent

Láta öllum illum látum

Hundruð mótmælenda hafa látið öllum illum látum í Skotlandi í morgun þar sem ráðstefna leiðtoga G8-iðnríkjanna hefst síðar í dag. Útlit er fyrir að friðsömum mótmælum sem áttu að fara fram síðar í dag verði aflýst vegna ólátanna í morgun. Strax eldsnemma í morgun gengu nokkur hundruð mótmælendur hreinlega berseksgang nærri Gleneagles þar sem fundurinn hefst síðar í dag. Um þrjú hundruð hettuklæddir mótmælendur þrömmuðu um götur nærri fundarstaðnum og brutu rúður í verslunum og bílum og létu öllum illum látum. Þeir létu svo til skarar skríða gegn lögreglumönnum, vopnaðir flöskum, steinum og járnstöngum. Einn lögreglubíll varð að flýja af vettvangi þegar hópur manna gerði aðsúg að bílnum og byrjaði að berja í rúður hans með járnrörum og öðrum bareflum. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast alvarlega í átökunum en tveir mótmælendur voru handteknir og götum í nágrenni fundarstaðarins var lokað. Þá kom til mikilla átaka á milli lögreglu og mótmælenda við aðalþjóðveginn á milli Edinborgar og Gleneagles. Vegurinn hefur verið lokaður í morgun þar sem erfiðlega hefur gengið að rýma hann. Talið er að mótmælendurnir ætli sér að reyna að koma í veg fyrir að fjölmiðlafólk og embættismenn komist á fundarstaðinn. Mikil umferðarteppa hefur myndast eftir að þjóðveginum var lokað. Mótmælendurnir koma flestir frá Bretlandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu. Lögregla aflýsti á tólfta tímanum friðsömum mótmælum sem búið var að gefa leyfi fyrir í bænum Achterarder sem er í nágrenni Gleneagles. Leyfi hafði verið gefið fyrir fimm þúsund manna friðsömum mótmælum þar en eftir atvik morgunsins telur lögregla rétt að afturkalla mótmælin þar sem þau kunni að stefna almennum borgurum í verulega hættu. Lögreglumenn og skipuleggjendur mótmælanna funda nú um hvort halda megi mótmælin á öðrum stað eða með öðrum hætti en upphaflega var gert ráð fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×