Erlent

Klofin þjóð gengur að kjörborðinu

Síðari umferð írönsku forsetakosninganna var haldin í gær en þá kusu landsmenn á milli þeirra Hashemi Rafsanjani og Mamhoud Ahmadinejad. Kjörsókn var svo góð að kjörstaðir voru opnir langt fram á kvöld. Búist er við endanlegum úrslitum í dag. Enginn fékk hreinan meirihluta í fyrri umferð kosninganna sem haldin var 17. júní og því varð að kjósa aftur á milli þeirra sem flest atkvæði hlutu, Rafsanjani, sem gegndi forsetaembættinu á árunum 1989-97 og Ahmadinejad, borgarstjóra í Teheran og harðlínumanns. Rétt eins og í síðustu viku var kjörsókn svo góð að kjörstaðir voru hafðir opnir lengur en í fyrstu var áformað. Langar biðraðir mynduðust jafnt í fátækrahverfum höfuðborgarinnar svo og í ríkari borgarhlutum. Sú staðreynd að Rafsanjani og Ahmadinejad bitust um forsetaembættið endurspeglar klofning þjóðarinnar. Rafsanjani nýtur stuðnings frjálslyndra mennta- og viðskiptamanna sem vonast til að þeim umbótum sem Mohammad Khatami, fráfarandi forseti, barðist fyrir verði framhaldið. Ahmadinejad sækir hins vegar fylgi sitt til alþýðunnar sem telur sig hafa farið á mis við ávexti umbótanna og sé jafn fátækur nú sem endranær. Stuðningur við byltinguna á sínum tíma var einmitt mestur úr röðum almúgans og hann leggst gegn róttækum breytingum á hinni trúarlegu þjóðfélagsskipan. "Ég styð Ahmadinejad í Guðs nafni," sagði Masoud Memariam, ungur kjósandi í Teheran. "Þjóðinni verður steypt í glötun komist harðlínumenn til valda," sagði hins vegar Daryoush Hamadi, þrítugur stuðningsmaður Rafsanjani, á kjörstað í höfuðborginni. Ærinn starfi bíður nýs forseta landsins. Hann þarf í fyrsta lagi að huga að efnahagsumbótum því atvinnuleysi í Íran er umtalsvert, um þrjátíu prósent að því að talið er. Lýðræðisumbætur eru jafnframt nauðsynlegar í landinu þar sem öll raunveruleg völd hvíla í höndum klerkastjórnarinnar sem starfar í eigin umboði. Enn fremur bíða forsetans erfiðar samningaviðræður við Vesturlönd um kjarnorkumál. Íranar halda því fram að kjarnorkuáætlun þeirra feli eingöngu í sér þróun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi en því eiga stjórnvöld á Vesturlöndum, sérstaklega í Washington bágt með að trúa. Úrslit kosninganna liggja fyrir í dag en síðustu spár bentu til þess að mjög mjótt yrði á mununum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×