Erlent

Útflutningur kvikasilfurs bannaður

Umhverfisráðherrar Evrópusambandsríkjanna sömdu um það á fundi sínum í dag að banna útflutning á kvikasilfri fyrir árslok 2010. Þá vilja þeir einnig draga úr notkun málmsins í hitamælum og vinna að því á alþjóðavettvangi að draga úr losun þessa fljótandi málms í náttúrunni. Kvikasilfur getur skemmt taugakerfið og nýrun í mönnum og hefur barnshafandi konum verið ráðið frá því að neyta ákveðinna fisktegunda vegna kvikasilfursmengunar í sjónum. Danir og Svíar vildu banna útflutninginn frá og með árinu 2008 en um það náðist ekki samstaða meðal ráðherrranna. Um þriðjungur alls kvikasilfurs sem unnið er í heiminum kemur frá löndum Evrópusambandsins, en málmurinn er meðal annars notaður við tannlækningar og í lyf og snyrtivörur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×