Erlent

Óslökkvandi ófriðarbál

Tæplega fjörutíu manns fórust í hryðjuverkaárásum víðs vegar í Írak síðastliðinn sólarhring, þar á meðal virtur lagaprófessor úr röðum súnnía sem hafði lýst áhuga á að taka þátt í samningu stjórnarskrár landsins. Ekkert lát er því á ofbeldisverkum í landinu. Seint í fyrrakvöld sprungu fjórar bílsprengjur í Shula-hverfinu í Bagdad með þeim afleiðingum að 23 týndu lífi. Í gærmorgun voru svo tvær bílsprengjuárásir gerðar fyrir utan jafn margar moskur í Karradah-hverfinu í höfuðborginni. Sprengjurnar sprungu nánast samtímis og biðu fimmtán manns bana af þeirra völdum en 28 særðust. Árásirnar eiga það sammerkt að vera allar gerðar í hverfum sem einkum eru byggð sjíum og framdar um það leyti sem flest fólk er á götunum. Tilræðin í Shula voru gerð rétt áður en útgöngubannið tók gildi og því voru margir á leið heim úr verslunum og af veitingingahúsum. Karradah-sprengjurnar sprungu hins vegar snemma morguns þegar margt fólk kaupir inn áður en kæfandi hitinn færist yfir borgina. Samtökin Ansar al-Sunnah, sem í eru súnní-arabar og Kúrdar, kváðust í yfirlýsingu á netinu hafa staðið á bak við tilræðin í fyrrakvöld. Á miðvikudagskvöldið var svo Jassim al-Issawi, lagaprófessor úr hópi súnnía, skotinn til bana en hann hafði sóst eftir því að fá að taka þátt í að semja stjórnarskrá landsins. Morðið var augljóslega framið til að fæla súnnía frá að taka þátt í stjórnmálauppbyggingu landsins. Ekki er vitað hverjir bera ábyrgð á morðinu en al-Kaída í Írak hefur hótað þeim súnníum sem starfa með ríkisstjórninni eða hernámsliðinu dauða. 1.240 Írakar hafa nú fallið í átökum og tilræðum síðan ríkisstjórn Ibrahim al-Jaafari tók við völdum. Rósturnar í landinu hafa þannig aukist þvert á það sem búist var við. Samtök á borð við al-Kaída eru vissulega ábyrg fyrir mörgum dauðsfallanna en jafnframt vegur þungt að óánægja súnnía með hlut sinn í stjórn landsins hefur vaxið stöðugt. Þeir höfðu töglin og hagldirnar í stjórn landsins þar til Saddam Hussein var steypt af stóli en síðan hefur hallað undan fæti. Atvinnuleysi í landinu er ennþá mikið og uppbyggingin hefur gengið hægar fyrir sig en reiknað er með - ekki síst vegna ótrausts öryggisástands. Ástandið leiðir aftur á móti til þess að æsingamenn finna frjóan jarðveg í röðum þeirra sem óánægðastir eru með sinn hag. Þar með hefur myndast vítahringur sem erfitt er fyrir landsmenn að losna út úr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×