Erlent

Blóðug átök í Belfast

Tugir manna slösuðust í blóðugum átökum í Belfast á Norður-Írlandi í gærkvöldi. Óttast er að þetta sé fyrirboði um það sem koma skal í sumar. Þótt ekki hafi enn gróið um heilt með kaþólikkum og mótmælendum á Norður-Írlandi hefur verið fremur rólegt þar undanfarin misseri. Í gær urðu hins vegar heiftarleg viðbrögð við skrúðgöngu mótmælenda og er óttast að það setji tóninn fyrir þær göngur sem eftir er að fara á þessu sumri. Séra Ian Paisley og aðrir harðlínumenn meðal leiðtoga mótmælenda hafa undanfarið alið á úlfúð milli þjóðarbrotanna. Óraníuregla mótmælenda fer í þessar göngur til þess að minnast sögulegra atburða sem oftar en ekki tengjast sigrum þeirra yfir kaþólikkum í einhverri orrustunni fyrr á öldum. Þær eru því bein ögrun við kaþólska íbúa landsins, enda hafa mótmælendur gert sér far um að fara inn í þeirra borgarhverfi í skúðgöngum sínum. Göngurnar hafa kostað fjölmörg mannslíf á undanförnum áratugum en eftir að vopnahlé var samið sem kennt er við föstudaginn langa hefur ekki komið til stórtíðinda, fyrr en í gær. Átján lögreglumenn slösuðust í þeim átökum, sem og fjöldamargir mótmælendur, en kaþólikkar létu flöskum og grjóti rigna yfir þá. Lögreglusveitir voru fjölmennar og vatnsbílum óspart beitt til þess að reyna að kæla blóðið í deilendum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×