Erlent

Heim eftir fjörutíu ár

Charles Jenkins, sem gerðist liðhlaupi úr bandaríska hernum fyrir fjörutíu árum og ílentist í Norður-Kóreu, kom í gær til Bandaríkjanna í fyrsta sinn síðan hann hvarf úr herdeild sinni á markalínu Suður- og Norður-Kóreu. Erindi Jenkins er að heimsækja háaldraða móður sína. Með honum í för eru japönsk eiginkona hans og dætur þeirra tvær. Hjónin kynntust í Norður-Kóreu, þar sem þau voru bæði í haldi yfirvalda um áratuga skeið og látin kenna norður-kóreskum leynþjónustumönnum ensku og japönsku. Þau fengu að flytja til Japans fyrir þremur árum. Eftir að ljóst varð hvað orðið hefði um Jenkins var hann rekinn úr hernum með skömm og dæmdur af bandarískum herdómstól í Japan til 25 daga fangelsisvistar, sem hann afplánaði þar á síðasta ári. Hann fékk nú heimild til að dvelja í eina viku í Bandaríkjunum til að heimsækja móður sína og skyldfólk í Norður-Karolínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×