Sport

FH vann spræka Þróttara

FH er enn með fullt hús stiga eftir 3-1 sigur á Þrótti í gær. Sigurinn var ekki jafn öruggur og úrslitin gefa til kynna en Þróttarar léku einn sinn besta leik í sumar. Tryggvi Guðmundsson heldur áfram að bæta við mörkum enda greinilega enn heitur eftir landsleikinn. Hann skoraði tvö í gær og hefur nú alls skorað sjö – og ekki nema fimm leikir búnir. Það var svo varamaðurinn Jónas Grani Garðarsson sem minnti á sig með þriðja marki leiksins. Fyrra mark Tryggva var stórglæsilegt enda ekki á hverjum degi skorað með bakfallsspyrnu. Tryggvi smellhitti boltann sem sveif í markhornið fjær og kom Fjalar engum vörnum við. Markið kom á mjög góðum tíma fyrir heimamenn, fyrri hálfleikur var við það að klárast. Fram að því höfðu Þróttarar varist mjög vel enda þéttir fyrir gegn öflugri sóknarlínu FH-inga. Þeim tókst að beita einnig skæðum skyndisóknum framan af í leiknum en Auðun Helgason sá um að kæfa allar slíkar tilraunir í fæðingu. Besta færi FH-inga fyrir markið fékk Davíð Þór er hann skaut í stöngina. Þróttarar voru vel á tánum þrátt fyrir markið og tókst að refsa FH-ingum á 55. mínútu er Jozef Maruniak slapp fram hjá Tommy Nielsen og skoraði gott mark. Davíð Þór hefði átt að skora en lét verja frá sér þrátt fyrir ótrúlega gott marktækifæri. Í kjölfarið náði Jón Þorgrímur að renna knettinum yfir línuna en var dæmdur rangstæður eftir mikið þref. Leikurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var og voru gestirnir síst lakari aðilinn í leiknum. En umdeildur vítaspyrnudómur gerði út um leikinn og skoraði Tryggvi örugglega úr vítinu. Þriðja markið kom fljótlega á eftir enda höfðu Þróttarar gefið alla von upp á bátinn. Sem fyrr sýna FH-ingar ekki sitt besta en tekst samt að innbyrða sigur. Það voru hættumerki á varnarleik liðsins en Auðun Helgason var þar alger yfirburðamaður og bjargaði sínum mönnum hvað eftir annað. Þróttarar sýndu að það ber ekki að afskrifa þá og með svona spilamennsku geta þeir staðið í hvaða liði sem er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×