Innlent

Tignarleg sveitahöll í Borgarfirði

Glöggir vegfarendur sem leið eiga um Borgarfjörð hafa efalítið tekið eftir sveitahöllinni að Skarðshömrum sem ekki á sinn líkan í sveitum landsins og þó víðar væri leitað. Hún hefur verið í byggingu síðan í byrjun árs 2003 en nú eru framkvæmdir á lokastigi. Aðalbyggingin er einir 342 fermetrar en þar að auki eru tveir gestaskálar bak við hól og sjást því ekki af þjóðveginum en hvor skáli um sig er 46 fermetrar. Það sem fyrst dregur þó athygli manna er sennilega turninn sem gnæfir yfir öllum herlegheitunum en hann er sex metra hár. Fyrir framan anddyrið er svo greinilega gert ráð fyrir lítilli tjörn á planinu. Þar að auki er lítil hústjörn meðfram byggingunni að framanverðu. Byggingin er steinsteypt en svo er harðviður undir þakbrúnum og trésúlur sem halda uppi skýli við inngang. Eigandi þessarar glæsibyggingar er Sigurður Gíslason en hann er nú búsettur erlendis. Það er Vífill Magnússon arkitekt sem gerði teikningarnar að byggingunum. Sveitungarnir í grenndinni sem Fréttablaðið hafði samband við voru hinir kátustu með þennan tignarlega bústað og varð einum svo að orði að það ætti að vera lýðum ljóst að það væru sko engin kotbýli í Borgarfirði. Það má til sanns vegar færa því verð á húsum og jörðum í Borgarfirði hafa hækkað mikið undanfarin ár að sögn Páls Brynjarssonar, bæjarstjóra Borgarbyggðar. Magnús Leópoldsson, fasteignasali, segir það færast í aukana að fólk byggi stórt í sveitum landsins. Flestir viðmælenda Fréttablaðsins voru þó sammála um að stærð og hönnun þessarar byggingar setji hana í all nokkra sérstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×