Lífið

Flaug með aðdáendur til landsins

Stórsveitin Iron Maiden heldur tónleika í Egilshöll í kvöld og komu tveir síðustu meðlimir sveitarinnar til landsins í hádeginu. Bruce Dickinson, söngvari og aðalsprauta sveitarinnar, var brosmildur við komuna til landsins en hann flaug sjálfur flugvéllinni. Dickinson segir að þegar sveitin hafi leikið hér síðast hafi það verið frábært. Aðspurður um hvaða efni sveitin muni flytja segir hann að ekkert verði um nýtt efni heldur aðeins lög af fjórum fyrstu plötunum, sumt af því sem sveitin hafi ekki spilað mjög lengi. Dickinson er eins og margir vita atvinnuflugmaður í hjáverkum. Hann tók um 200 harða aðdáendur sveitarinnar með sér og var mikið fjör í vélinni sem bar hið sérstaka flugnúmer AEU-666. Dickenson segir að hugmyndin að þessu hafi kviknað fyrir tveimur til þremur árum. Hún hafi verið prófuð í París og Dyflinni í fyrra og það hafi komið mjög vel út. Í þetta sinn hafi vélin þó verið stærri og sætin sömuleiðis og þau hafi mjög þægileg. Þrátt fyrir að hafa verið í bransanum í 25 ár láta þeir félagar aldurinn lítið á sig fá og lofa góðri skemmtun en tónleikarnir hefjast klukkan 21 í kvöld. Nick McBrain, trommari sveitarinnar, sagði við komuna í dag að það væri frábært að vera kominn aftur og að hann sæi að veðrið hefði ekkert breyst.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.