Innlent

Orkuveitan reisir 600 bústaði

"Orkuveitan á frábær lönd við ÚIfljótsvatn, í Hvammsvík og á Nesjavöllum og það er vilji til að nýta þau," sagði Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, en í dag mun stjórn Orkuveitunnar taka ákvörðun um hvort Orkuveitan verði með í félagi um byggingu allt að 600 sumarbústaða í landi Úlfljótsvatns í Grímsnes- og Grafningshreppi. Nýtt félag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og Klasa, sem er dótturfélag Íslandsbanka, hyggst reisa að minnsta kosti sex hundruð sumarbústaði í nýrri frístundabyggð ef tillaga um það verður samþykkt á stjórnarfundi í dag. Lagt verður til að stofnað verði nýtt hlutafélag um reksturinn, Úlfljótsvatn frístundabyggð. Félagið verður til helminga í eigu Orkuveitunnar og Klasa. Hvor eigendanna mun leggja fram allt að 150 milljónir króna í hlutafé til hins nýja félags. Framlag Orkuveitunnar verður í formi landsvæðis en Klasi leggur fram reiðufé. Samkvæmt hluthafasamningi sem gerður hefur verið leggur Orkuveitan fram jörðina Úlfljótsvatn, sem er tæplega 1.500 hektarar og er að verðmæti 150 milljónir króna. Klasi greiðir annars vegar 50 milljónir króna í formi hlutafjár og með kaupum á hlutafé af Orkuveitunni fyrir sömu upphæð. Markmið félagsins er að annast mögulega byggingu og sölu sumarhúsa og þjónusta frístundabyggðina. Gert er ráð fyrir að hver lóð verði að lágmarki hálfur hektari og er gert ráð fyrir byggð að minnsta kosti 600 húsa, og fleiri ef mögulegt er. Miðað er við að undirbúningstími byggðarinnar hefjist strax og vari til ársloka 2006 en gert er ráð fyrir að byggingaframkvæmdir geti hafist á árinu 2007. "Ég og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fórum til Bandaríkjanna til að skoða frístundabyggðir og eftir þá ferð var auglýst eftir samstarfsaðila," sagði Alfreð Þorsteinsson. Meðal manna í varastjórn Klasa eru athafnamennirnir Ásgeir Bolli Kristinsson og Sigurður Gísli Pálmason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×