Innlent

Þriðjungslækkun á matvælaverði

Þriðjungslækkun hefur orðið á matvælaverði hjá stóru lágvöruverðsverslununum á undanförnum mánuðum, samkvæmt könnunum ASÍ. Ekki arðvænlegur rekstur, segir framkvæmdastjóri Bónus. Það eru komnir þrír mánuðir frá því Krónan lýsti yfir stríði gegn öðrum lágvöruverðsverslunum og þó það sé ekki enn á forsíðum blaðanna þá stendur stríðið enn. Kannanir ASÍ sýna að vörukarfan hefur lækkað í verði um rúm 37 prósent í Bónus og 33 prósent í Krónunni. Enn er keppst við að lækka og skipta um verð á hverjum degi og sumar vörur virðast seldar langt undir innkaupsverði. Efst á listanum yfir vörur eru mjólkurvörur - dæmi eru um að skyrdrykkir séu seldir á um 30 krónur en kosta víðast hvar annars staðar frá 90 og upp í 130 krónur. Mjólk fékkst á tímabili fyrir nánast ekki neitt en síðar 25 krónur. Innkaupsverð er í kringum 79 krónur. Hjá Krónunni voru menn hvergi bangnir og sögðu þetta kostnað samkeppninnar - þeir ætluðu hins vegar ekki að gefa eftir og héldu ótrauðir áfram. Sömu sögu var að segja hjá hinni stóru keðjunni, Bónus. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri þar, sagði þetta ekki arðvænlegan rekstur sem stæði en að Bónus byði betur, hvað sem það kostaði. Og hætt er við að það geti kostað dágóðan skilding því að vöruverðið í helstu verslununum er lækkað jafnvel nokkrum sinnum á dag. Guðmundur sagði þetta hafa leitt til þess að vöruverð í Bónus og væntanlega öðrum verslunum á svipuðu reiki væri allt að 80 prósentum lægra en í verslunum í dýrari kantinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×