Erlent

Al-Zarqawi hugsanlega í Íran

Talið er að Abu Musab al-Zarqawi, leiðtogi al-Kaída Írak, hafi yfirgefið landið. 25 fórust í árásum og átökum víða um landið í gær. Stærsta hernaðaraðgerð Íraka síðan Saddam Hussein var steypt af stóli hófst í gær. Þá tóku hermenn að reisa eftirlitsstöðvar víða í Bagdad auk þess sem þeir réðust inn á fjölda heimila í Dora-hverfinu í höfuðborginni þar sem grunaðir hryðjuverkamenn eru taldir halda sig. Það aftraði þeim ekki frá því að halda uppteknum hætti því í gær týndu að minnsta kosti 25 lífi í fjölmörgum bardögum og árásum víða um landið. Sem fyrr beindu uppreisnarmenn spjótum sínum helst að lögreglustöðvum og voru margar slíkar árásir gerðar í höfuðborginni í gærmorgun, allar um svipað leyti. Í gær greindi breska dagblaðið The Sunday Times frá því að Abu Musab al-Zarqawi, forsprakki al-Kaída í Írak, hefði flúið til Írans eftir að hafa særst illa í eldflaugaárás. Blaðið segist hafa fengið upplýsingar sínar frá nánum samstarfsmanni al-Zarqawi. Þá var skýrt frá því að japanski gíslinn Akihiko Saito væri látinn en hann var í haldi uppreisnarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×