Erlent

Frakkar höfnuðu sáttmálanum

Frakkar höfnuðu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í gær. Úrslitin eru reiðarslag fyrir Jacques Chirac, forseta landsins, og draga auk þess úr líkunum á að sáttmálinn taki gildi í óbreyttri mynd. Kjörsókn var prýðileg í kosningunum í gær, um sjötíu prósent þjóðarinnar neytti atkvæðisréttar síns. Þegar 83 prósent atkvæða höfðu verið talin í gærkvöld tilkynnti franska innanríkisráðuneytið að 57,26 prósent hefðu sagt nei en aðeins 42,74 prósent hefðu sagt já. Stuttu síðar flutti Chirac stutt sjónvarpsávarp þar sem hann viðurkenndi ósigur sinn. "Frakkland hefur sagt sína skoðun á lýðræðislegan hátt. Þetta er sjálfstæð ákvörðun ykkar og ég virði hana," sagði hann en bætti við að staðfestingarferlið yrði að halda áfram í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Philippe de Villiers, leiðtogi andstæðinga stjórnarskrársáttmálans, sagði að úrslitin þýddu að sáttmálinn væri nú dautt plagg og skoraði á Chirac að segja af sér. Úrslitin í Frakklandi auka líkurnar á að Hollendingar hafni sáttmálanum í sinni atkvæðagreiðslu sem haldin verður á miðvikudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×