Erlent

Vilja samstöðu gegn hernaði

Stúdentar í Suður-Kóreu vilja að íbúar Suður- og Norður-Kóreu standi saman í andstöðu gegn hernaðaráformum Bandaríkjanna á Kóreuskaga. Þúsundir stúdenta í Suður-Kóreu mótmæltu á götum úti í dag. Talið er að fimmtán þúsund stúdentar hafi tekið þátt í mótmælunum sem fram fóru við sendiráð og herstöð Bandaríkjanna í borginni Seúl. Að minnsta kosti tólf mótmælendur særðust í átökum þegar þeir reyndu að brjóta sér leið að herstöðinni fram hjá sveit öryggislögreglunnar. Í kjölfarið var á þriðja tug þeirra handtekinn. Stúdentarnir krefjast þess að Bandarísk stjórnvöld kalli herafla sinn frá landinu, en um 32 þúsund bandarískir hermenn gegna herþjónustu í Suður Kóreu. Bandaríkjaher hefur haft bækistöðvar þar frá því Kóreustríðið geisaði um miðja síðustu öld og gætt landamæra Norður- og Suður-Kóreu. Mótmælendurnir kröfðust að fá að ræða við bandaríska sendiherrann, en hann sá sér ekki fært um að verða við þeirri bón, og hélt sig innandyra. Þeir halda því enn fremur fram að Bandaríkjamenn ráðgeri að ráðast inn í kommúnistaríkið Norður-Kóreu og að það komi til með að stefna öllum íbúum á Kóreguskaganum í hættu. Song Hyo-Won, leiðtogi stúdenta, segir að fyrsta áætlun Bandaríkjanna um að ráðast inn í Norður-Kóreu hafi komið fram 1998. Áætlun um svo hættulega aðgerð sýni greinilega að Bandaríkjamenn hyggjast hefja stríð á Kóreuskaganum. Stríð í þessum heimshluta yrði Suður-Kóreumönnum erfitt og það þýtt tortímingu bæði Norður- og Suður-Kóreu. Bæði löndin verði að taka höndum saman og koma í veg fyrir slíkt stríð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×