Erlent

Blásið til stórsóknar

Íraska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að hún hygðist skera upp herör gegn uppreisnarmönnum í landinu. Að minnsta kosti fimmtán Írakar dóu í árásum gærdagsins. Síðastliðinn mánuð hafa yfir 620 manns fallið í árásum í Írak og því þarf ekki að koma á óvart að ríkisstjórn al-Jaafari sé búin að fá nóg. Í gær tilkynntu Bayan Jabr innanríkisráðherra og Saadoun al-Duleimi varnarmálaráðherra að 40.000 íraskir hermenn myndu umkringja Bagdad frá og með næstu viku og þjarma að uppreisnarmönnum. Á næstu mánuðum verður efnt til slíkra aðgerða víðar um landið. "Frá og með næstu viku verður mynduð sterk og þétt keðja um höfuðborgina, svipað og armband á úlnlið. Enginn mun geta slitið þessa keðju," sagði al-Duleimi við fréttamenn í gær. Hann bætti við að 675 varðstöðvar yrðu settar upp umhverfis borgina. Þetta er stærsta aðgerð íraska hersins síðan ráðist var inn í landið í mars 2003. Í það minnsta 15 Írakar týndu lífi í árásum víða um landið í gær. Þar á meðal var lítil telpa sem varð fyrir skothríð í átökum uppreisnarmanna við bandaríska hermenn í bænum Tal Afar í norðurhluta landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×