Erlent

Schröder vill keyra á persónukjör

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, leggur mikið undir. Með því að flýta kosningum um heilt ár, á tímum þegar jafnaðarmannaflokkur hans mælist á landsvísu með um fimmtán prósen minna fylgi en aðalkeppinauturinn Kristilegir demókratar, er líklegast að hann sé að stytta eigin valdatíma um heilt ár. Eftir niðurlægjandi ósigur jafnaðarmannaflokksins í sterkasta vígi hans, sambandslandinu Nordrhein-Westfalen, um síðustu helgi lítur hann svo á að sig skorti nægilega sterkt lýðræðislegt umboð til að koma efnahagsumbótastefnu sinni í framkvæmd. Hann verði því að sækja nýtt umboð til kjósenda - eða víkja fyrir öðrum sem kjósendur treysta betur. Kanslarinn hefur samkvæmt þýsku stjórnarskránni ekki vald til að rjúfa þing og boða kosningar sjálfur - nema þingið hafi áður samþykkt vantraust á hann. Því mun þann 1. júlí fara fram atkvæðagreiðsla á Sambandsþinginu um vantraust á Schröder og ríkisstjórn hans, þar sem stjórnarliðar jafnaðarmanna og græningja munu sitja hjá. Sömu aðferð beitti Helmut Kohl er hann vildi boða til kosninga árið 1983, í kjölfar þess er hann tók við kanslarastólnum af jafnaðarmanninum Helmut Schmidt á miðju kjörtímabili. Þess er vænst að kosningarnar fari fram hinn 18. september næstkomandi. Í fyrsta blaðaviðtalinu sem Schröder veitti eftir að hann lýsti því yfir að hann vildi flýta kosningunum segist hann vilja "mjög persónumiðaða" kosningabaráttu. Í ljósi þess hve forskot stjórnarandstöðunnar er mikið í skoðanakönnunum er skiljanlegt að kanslarinn reyni að nýta þá styrkleika sem hann hefur í samanburði við væntanlegan keppinaut sinn um kanslarastólinn. Hann vill reyna að nýta sér "kjörþokkaforskotið" sem segja má að hann hafi fram yfir hina frekar litlausu Angelu Merkel, formann Kristilegra demókrata. "Ég held að okkur sé ráðlegt að heyja mjög persónumiðaða kosningabaráttu, sniðna að kanslaraefnunum tveimur," segir Schröder í viðtali við vikublaðið Die Zeit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×