Erlent

Leigumóðir seldi barn á Netinu

Belgísk leigumóðir seldi þriðja aðila barnið á Netinu án vitundar blóðforeldranna. Þá hafði hún reynt að koma barninu í verð hjá enn öðru pari. Hollensk hjón eru sögð hafa borgað konunni jafnvirði tólf hundruð þúsund íslenskra króna fyrir stúlkubarnið sem heitir Donna og að viðskiptin hafi farið fram á Netinu. Ættleiðingarferli hollensku hjónanna er hafið. Leigumóðirin bar barnið hins vegar fyrir par í Belgíu. Á meðgöngunni bauð konan barnið til sölu á Netinu og laug því að belgísku blóðforeldrum barnsins að hún hefði misst fóstrið. Hollenska parið, sem fékk stúlkuna í hendur strax eftir fæðingu, neitar því alfarið að hafa vitað af belgísku hjónunum. Þau segja það sem gekk á í Belgíu ekki vera sitt vandamál og eru staðráðin í að halda henni. Leigumóðirin segir nú að hún og eiginmaður hennar hafi getið barnið. Prófessor í lögum segir að belgíska parið geti höfðað mál til að reyna að fá Donnu en þá þurfi það úrskurð dómara til að fá nauðsynleg lífsýni. Það sem kannski vekur enn meiri furðu er að tveimur mánuðum fyrir fæðingu Donnu bauð leigumóðirin enn öðru pari stúlkuna, samkynhneigðu pari í Belgíu sem afþakkaði þar eð þeim fannst samskiptin við móðurina minna helst til of mikið á mansal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×