Erlent

Einn blóðugasti dagurinn í Írak

Írakskir borgarar upplifðu einn blóðugasta dag í tæpt ár í gær en að minnsta kosti 50 Írakar létu lífið í sprengjutilræðum víðs vegar um landið. Rúmlega 600 manns, þar af 50 bandarískir hermenn, hafa fallið í landinu frá því uppreisnarmenn blésu til sóknar í kjölfar myndunar nýrrar ríkisstjórnar landsins í apríl síðastliðnum. Mesta mannfall dagsins varð þegar tvær sprengjur sprungu í bænum Tal Afar vestur af borginni Mósúl undir kvöld en að minnsta kosti 20 manns létu lífið í þeim árásum. Þá sprengdi tilræðismaður sjálfan sig í loft upp og tíu óbreytta borgara við mosku sjíta í Mahmoudiya um 30 km suður af Bagdad en mörg fórnarlömb þeirrar árásar voru ung börn. Þá létu fimm manns lífið í sprengjutilræði við bæjarstjórnarskrifstofur í bænum Tuz Khurmato suður af borginni Kirkuk og átta manns fórust er sprengja sprakk við vinsælan veitingastað sjíta í Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×