Erlent

Dómsuppkvaðningu enn frestað

Dómsuppkvaðningu í máli rússneska auðjöfursins Mikhails Khodorkovskys, eiganda Yukos-olíurisans, hefur enn á ný verið frestað þangað til á morgun. Enginn vafi virðist þó leika á því að Khodorkovsky verði fundinn sekur.  Khodorkovsky og samstarfsmaður hans, Lebedev, eru meðal annars sakaðir um þjófnað, fjárdrátt og skattsvik. Réttarhöldin yfir þeim þykja um margt minna á aðfarir gömlu sovésku kommúnistastjórnanna, enda virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að með þessum málarekstri sé Pútín Rússlandsforseti að losa sig við óþægilegan keppinaut. „Sýndarréttarhöld“ og „pólitískt leikrit“; þannig lýsa verjendur Khodorkovskys málarekstrinum og hafa fundið öflugan málsvara í bandarísku ríkisstjórninni sem einnig hefur gagnrýnt þetta mál. Það er hins vegar athyglisvert að það eru fáir Rússar sem gráta örlög Khodorkovskys. Hann nýtur lítils stuðnings meðal almennings sem gremst hvernig örfáir sérútvaldir menn, eins og Khodorkovsky, urðu auðkýfingar nánast á einni nóttu þegar sovésku ríkisfyrirtækin voru einkavædd. Flest bendir til þess að Khodorkovsky og Lebedev verði sakfelldir á morgun en þá á eftir að ákvarða refsinguna. Saksóknari hefur krafistíu ára fangelsisdóms og ef réttarhöldin eru sá pólitíski tilbúningur sem stuðningsmenn Khodorkovskys segja, þá má búast við því að báðir menn hljóti einmitt tíu ára dóm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×