Erlent

Misréttis minnst á Norðurlöndum

Efnahagslegt kynjamisrétti er minnst á Norðurlöndunum samkvæmt skýrslu samtakanna World Economic Forum (WEF) í Sviss. Minnst mældist kynjamisréttið í Svíþjóð, þá Noregi, Ísland var í þriðja sæti og því næst Danmörk og Finnland. Kynjamisréttið reyndist hins vegar mest í Egyptalandi, Tyrklandi og Pakistan.  Ekkert ríki hefur þó náð að eyða efnahagslegu kynjamisrétti algjörlega. Bandaríkin voru gagnrýnd sérstaklega í skýrslunni fyrir að vera langt á eftir mörgum ríkjum Vestur-Evrópu. Könnun WEF-samtakanna náði til 58 landa, þar af allra ríkjanna í Efnahags- og framfarastofnun Evrópu auk 28 annarra landa. Könnunin byggir meðal annars á hvort kynin fá jafnhá laun fyrir sambærilega vinnu og aðgengi kvenna að vinnumarkaði. Þá var einnig tekið tillit til þátttöku kvenna í stjórnmálum, aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. "Kynjamisrétti er eitt mesta óréttlæti heimsins í dag," segir Augusto Lopez-Clarez, einn höfunda skýrslunnar. "Ríki sem nýta ekki starfskrafta helmings þegna sinna grafa sannarlega undan samkeppnishæfni sinni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×