Erlent

Refsing ákveðin síðar

Rússneski olíuauðjöfurinn Mikhail Khodorkovsky var í morgun fundinn sekur, meðal annars um þjófnað og skattsvik. Málið hefur skaðað orðspor Pútíns Rússlandsforseta enda hefur allur málareksturinn gegn Khodorkovsky sætt mikilli gagnrýni á Vesturlöndum. Dómari hóf í morgun að lesa úrskurð sinn í máli Khodorkovskys og hafði hann verið fundinn sekur um fjögur ákæruatriði af sjö þegar hlé var gert réttarhaldinu til morguns. Þá er búist við úrskurði í þeim þremur ákæruatriðum sem eftir eru en refsing verður hins vegar ekki ákveðin fyrr en síðar. Verjandi Khodorkovskys bendir á að dómarinn hafi ítrekað í morgun vísað til Khodorkovskys sem leiðtoga glæpahóps og segir að málflutningurinn bendi eindregið til þess að niðurstaðan sé gefin. Málareksturinn gegn Khodorkovsky hefur staðið í tæplega tvö ár og sjálf réttarhöldin í tæpt ár. Honum og viðskiptafélaga hans, Platon Lebedev, er gefið að sök að hafa hagnast ólöglega á einkavæðingaferlinu í Rússlandi, fjársvik, skattsvik og fjárdrátt. Margir hafa hins vegar leitað skýringa á þessum málatilbúningi annars staðar því Khodorkovsky var upprennandi stjórnmálamaður í Rússlandi og hatrammur pólitískur andstæðingur Pútíns forseta. Líkur hafa verið leiddar að því að Pútín hafi fyrirskipað handtöku Khodorkovskys til að losa sig við óþægilegan pólitískan andstæðing. Bandaríkjastjórn hefur sérstaklega tekið upp hanskann fyrir Khodorkovsky og gagnrýnt rússnesk stjórnvöld fyrir óheiðarleg vinnubrögð í þessu máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×