Erlent

Fundu lík af 34 Írökum um helgina

Yfirvöld í Írak greindu frá því í dag að þau hefðu um helgina fundið lík af 34 Írökum sem talið er að uppreisnarmenn hafi myrt. Lögregla fann 13 lík af fólki sem skotið hafði verið í höfuðið í ruslagámi í höfuðborginni Bagdad og þá fundust 10 hermenn látnir í borginni Ramadi, vestur af Bagdad. Enn fremur fann lögregla ellefu látna Íraka í svokölluðum dauðaþríhyrningi suður af Bagdad og höfðu fjóri þeirra verið afhöfðaðir. Auk þess bárust fréttir af sjálfsmorðsárás tveggja manna á héraðsstjóra í Diyala og létust sex í þeirri árás. Árásum á bæði her- og lögreglumenn og aðra opinbera starfsmenn virðist því ekki vera að linna en uppreisnarmenn, sem flestir koma úr röðum súnníta, hafa hert mjög árásir sínar síðustu vikur í kjölfar þess að ný ríkisstjórn var mynduð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×