Erlent

Mótmæli í Afganistan

Að minnsta kosti sjö mótmælendur og lögreglumaður létust í gær þegar öryggissveitir skutu á mannfjölda sem mótmælti vanvirðingu bandarískra hermanna í Guantanamo á Kóraninum, helgiriti múslima. Þar með er fjöldi látinna kominn upp í 15 í þessum mestu mótmælum gegn bandaríska hervaldsliðinu síðan þeir réðust inn í landið 2001 og er það mikið áhyggjuefni fyrir Hamid Karzai forseta Afganistan sem nýtur stuðnings bandarískra yfirvalda. Róstursamt hefur verið í Afganistan síðan á þriðjudag eftir að tímaritið Newsweek tilkynnti að hermenn í Guantanamo hefðu vanvirt Kóraninn til að koma íslömskum föngum í uppnám. Fjöldi arabaríkja hefur mótmælt þessari vanvirðingu, þar á meðal Pakistan og Sádí-Arabía, hvor tveggja miklar stuðningsþjóðir Bandaríkjanna. Mótmælendur hafa bæði eyðilagt fána og skemmt myndir af Bush Bandaríkjaforseta í mótmælaskyni þrátt fyrir að yfirvöld hafi hvatt til yfirvegunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×