Erlent

Róstur í Írak í gær

Ekkert lát er á ofbeldinu í Írak. 21 týndi lífi í fjórum bílsprengjuárásum víðs vegar um landið í gær. Bandarískar hersveitir sækja hart að uppreisnarmönnum sem hafast við nærri sýrlensku landamærunum. Mannskæðasta tilræðið var framið í Bagdad í gærmorgun. Þá sprakk öflug bílsprengja við markaðstorg þar sem fjöldi fólks var á ferli. Sautján heimamenn féllu og 65 særðust. Miklir eldar kviknuðu í kjölfarið í nálægum húsum og létu vegfarendur reiði sína bitna á lögreglu- og blaðamönnum. Bandarískir hermenn skutu úr byssum sínum upp í loftið til að dreifa reiðum múgnum. Matador-aðgerð hersveita Bandaríkjamanna var framhaldið í gær þar sem sótt er að uppreisnarmönnum sem hernámsliðið segir vera á snærum Abu Musab al-Zarqawi, samverkamanns al-Kaída. Til harðra bardaga kom á milli þeirra nærri sýrlensku landamærunum og dóu tveir bandarískir hermenn í átökunum. Ekki er vitað hversu margir uppreisnarmenn féllu. Sjötíu úkaínskir hermenn sneru í gær heim frá Írak og þar með lýkur fyrsta hluta brottflutnings herliðs Úkraínu í Írak. Enn eru nokkur hundruð hermenn eftir en þeir munu snúa heim á næstu mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×