Erlent

Verstu timburmenn í sögu Danmerkur

Hátíðarhöldin vegna 200 ára fæðingarafmælis H.C. Andersen í Kaupmannahöfn á dögunum, eru á góðri leið með að verða eitt mesta menningarhneyksli Danmerkur fyrr og síðar. Kostnaðaráætlun þessa mikla ævintýris til að heiðra minningu sagnaskáldsins hljóðaði upp á um 100 milljónir íslenskra króna en nú segja danskir fjölmiðlar að reikningurinn verði um 350 milljónir. Mikil gagnrýni hefur komið fram á framkvæmd hátíðarinnar og sérstaklega það að Tina Turner var kölluð til á síðustu stundu til að syngja tvö lög og fékk fyrir það um 60 milljónir króna. Stjórnendur hátíðarhaldanna afsaka sig með því að ekki hafi tekist að selja sjónvarpsútsendingu frá hátíðinni til eins margra landa og vonast var til en herlegheitin voru að sjálfsögðu send beint út. Íslendingar þurfa þó ekki að hafa samviskubit vegna tapsins því þeir borguðu sinn skerf fyrir útsendinguna en upphæðin liggur ekki fyrir þar sem þátturinn fékkst í gegnum Evrópusamband sjónvarpsstöðva.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×